Blessuð sé minning minnar óhneyksluðu sálar og blessuð sé minning post kólóniseraðrar þjóðar.

Forsætisráðherra Íslendinga fór í smá frí. Hann skrapp í smá frí og var ekki við í nokkra daga.

Að vísu fáeinum vikum eftir að þing var sett, en hann er jú maður og mannlegur og gæti þurft að taka sér frí á vandræðalegum augnablikum rétt eins og allir á sama vinnustað og allir sem tilheyra þessari þjóð.

Samt eru flestir reiðir, reiðir út í forsætisráðherrann fyrir að taka sér frí.

Hann er ekki í náðinni með það frí sitt.

En hvers vegna er það? Jú, þegar hann var að í óða önn við að ráða sig í vinnu hjá einni þjóð, lítilli og fámennri þjóð sem hefur einungis haft sjálfstæði í sjötíu ár.

Þjóð sem hélt hún væri rík, þjóð sem taldi sig eiga möguleika í framapoti þjóða á hnettinum.

Þjóð sem síðan rann á rassinn með sitt pot, þjóð sem setur nú rúmlega hundrað heimili á nauðungarsölur á einni viku, þjóð sem tapar eigum sínum og sjarma hægt og bítandi í fátækt og álryki, þjóð sem telur undir fimm hundruð þúsund hræður en er samt búin að koma upp fátæktargildrum fyrir einstaklinga og fjölskyldur í flestum hornum og það með einskærri græðgi og heimsku.

Þá sagðist þessi forsætisráðherra geta bjargað þessari þjóð, bjargað fólkinu, fólkinu sem er skítsama þó að þessi banki eða hinn sé í eigu þess eða hins, skítsama þó að þorskurinn í ódýru búðunum sé sprautaður með saltvatni og sé í raun alls ekki ódýr heldur rándýr, skítsama þó menntakerfið sé í molum, skítsama þó heilbrigðiskerfið sé innétið epli, skítsama hvar einhver ímyndaður spítali er staðsettur og skítsama um evrópusambandið og skítsama um landlæg brot á alþjóðasáttmálum, barnafyrirlitningu og útlendingahatur.

Það er varla við því að amast, fólkið hefur áhyggjur af öðru, það setti sínar áhyggjur í forgangsröð, hvaða heimilislausi durgur eða drós nennir að spá í evrópusambandið eða saltsprautaðann þorsk.

Það hefur annað á sinni könnu, það hefur aleigu sína á sinni könnu.

Við ráðninguna var það hið eina sem það gat hugsað um, að missa ekki aleiguna og öryggið, þ.e.a.s heimili sín. Það var þess vegna sem það ákvað að ráða þennan mann í vinnu og þess vegna sem hann fékk vinnuna og því er hann forsætisráðherra nú.

Samt má hann ekki taka sér frí.

Hann fer samt í frí og margir verða reiðir, en það eru líka margir sem hía á þá reiðu, spyrja út í vindinn hvaða bjálfaskapur það sé að trúa pólitíkus.

Ég velti fyrir mér hvort þeir, sem slíkt um spyrja, ljúgi sjálfir þegar þeir ráði sig í vinnu, eða þyki það sjálfsagt að draga fjölskyldur í heilu löndunum á tálar. Nú hefur hluti þjóðarinnar uppnefnt þann helming sem vildi ráða forsætisráðherrann í vinnu, auðtrúa bjálfa.

Ok, kannski svo.Það kemur svo glatað út, frí forsætisráðherrans, það kemur út eins og hann hafi fyrir löngu síðan ákveðið að láta aðra tala fyrir sig eftir ráðninguna, fólkið er móðgað, hann talar ekki lengur við það.

Það er fjármálaofurmenni sem er fjármálaráðherra landinu litla, sem talar fyrir forsætisráðherrann, hann segir, með báðar hendur á lofti, við fólkið í landinu, að það sé ekki nokkur leið að vita hvernig á að standa við þessi skrýtnu loforð forsætisráðherrans, heimilin verði að fara, fólk verði að láta sér götuna nægja og syrgja ekki um of aleiguna sína og stolt, af því að þetta séu undarleg og ójarðnesk loforð, þá sé auðvitað ekki hægt að segja til um hvenær þau verði að veruleika,  því áhersla vafans sé strand á hvort þau séu raunveruleg, loforðin sko.

Kona sem sér um innanríkismál í landinu litla segir að nauðungarsölur á heimilum séu eins og rigningin, ekki hægt að stjórna neinu, alveg stjórnlaust ferli og meira að segja veraldlega varið í stjórnarskrá, því handónýta plaggi.

Hvort fólkið í landinu haldi að hún sé með einhverja nauðungarsölu fjarstýringu í skúffunni sinni, nei hún sé ekki með svoleiðis, ekki frekar en á skýin.Það megi líka alls ekki vera að fikta svona með nauðungarsölu náttúrulögmálið, því það gæti móðgað þá sem þegar hefðu verið náttúrulega nauðdregnir út af heimilum sínum.

Ég er svo manntrúa, ég gef alltaf sjens, ég er að vona að forsætisráðherrann sé krútt sem leiðist svona hjal í þeim sem hann vinnur með, hann hafi jafnvel þurft á fríinu að halda til þess að leiða þvargið í þeim hjá sér, þurft að skreppa og skrapa saman vopnum sínum, til að skjóta fjármálaráðherra og innanríkisráðherra ref fyrir rass.

Hann er refur, hann gæti verið að finna leiðir til að þagga blíðlega niður í þeim svo hann geti í friði efnt sín loforð og komið trúgjörnum og vongóðum meðmælendum sínum á óvart og öllu fólkinu í landinu í leiðinni.

Kannski kemur hann úr fríinu og segir að allt sé nú klappað og klárt, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra séu þreytt og viti ekki hvað þau segi frá degi til dags þessa dagana.

Við fyrirgefum það, fólkið í landinu fyrirgefur það, annað eins hefur nú gerst.

Á meðan við bíðum klórum við okkur í hausnum og reynum að endurskilgreina eignaréttinn í handónýta stjórnarskrár plagginu okkar, það er svo erfitt að hafa haldið í sjötíu ár að það megi ekki gefa það sem aðrir eiga, sérstaklega fyrir þá sem híma utan í vanga og brjóstmyndum af Jóni Sigurðssyni.

Flestir, af fáum, héldu að það mætti ekki gefa það sem aðrir eiga, þessar vangaveltur um eignaréttinn er hægt að dunda sér við, meðan beðið er eftir forsætisráðherranum, gulldrengnum og bjargvættinum okkar.

Forsætisráðherrann gæti jafnvel flýtt sér smá, haskað sér, áður en fólkið í landinu fer að rannsaka hverjir það eru sem eru að kaupa heimilin, heimilin sem eru boðin upp í hundraðavís á einni viku, hverjir eru að kaupa þau forsætisráðherra?

Er það fína fólkið í slitastjórnum bankanna?

Er fína fólkið með peningana að kaupa heimilin á slikk?

Ha?

Ó, ekki svo?

Nú?

Hverjir þá?

Flýttu þér forsætisráðherra og frelsari, annars færðu svona leiðinlegar spurningar bráðum, þær eru alveg að koma.

Hann er upptekin maður, hann nennir ekki að svara svona nærgönglum spurningum, hann er skynsamur, hann flýtir sér ábyggilega áður en fólkið fer að spyrja hvasst.

En ef ekki, ef hann haskar sér ekki á okkar fund, þá er ég, sem hripa þetta niður í trúgirni og barnaskap bara með eitt ráð, áður en við, fólkið, gefum hann og hans ráðahirð alveg og endanlega upp á bátinn og rekum hann og hans ráðahirð með skít og skömm.

Það er að taka á móti manninum við heimkomu, fjöldamóttaka, allir að taka á móti honum.

Ekki með V for Vendetta grímur, ekki með satanískum níðstöngum, nei, enga vitleysu, þetta er raunveruleikinn, ekki neitt fantasíu vesen, það er of mikið, það má ekki vera með of mikið vesen, bara rólegt fólk í litlu landi sem er í klessu, skítaklessu.

Hans orð, gulldrengsins okkar, frelsarans, eru ekki brostin enn, nei nei, sendum honum heldur spurningamerki, því við viljum spyrja, verum hrein, spurningamerki er hreint, hrein skilaboð, ein spurn.

í stað þess að berja potta og pönnur þá búum við til skilti, lítil skilti og stór skilti, hvað sem til tekst og teiknum á þau spurningamerki, við sýnum honum spurningamerkin, við gólum hvorki né görgum, við spyrjum, við vöndum okkur, við erum kurteist fólk.

Við spyrjum bara, við byrjum á að spyrja, við erum eitt spurningamerki, þetta hefur aldrei komið fyrir okkur áður, allavega sagði amma það, aldrei, ekki í sjötíu ár.

Ef ekkert kemur svarið þá er þetta búið, þá höfum við engu að tapa.

Að öllum var logið, það var einhver ástæða fyrir því, ábyggilega gamla og klassíska íslenska bænda og höfðingjasamfélags ástæðan, græðgi og heimska, og sama hve þunn við erum og sama hve örvæntingarfull og hve skítsama okkur er um allt og alla þá látum við ekki ljúga að okkur er það.

Við látum ekki henda okkur út úr húsunum okkar, út á götu þar sem ekkert bíður, í borg þar sem enginn getur leigt sér skonsu nema að vera með hreint nafn og eiga peninga á við dópsala og handrukkara.

Við látum ekki niðurlægja okkur í ónýtri spítaladruslu þar sem enginn læknir nennir að vinna, við sættum okkur ekki við að neita börnum okkar um að læra tónlist, dans eða taka þátt í menningu, og fyrst það á að neita okkur um að vera í viðræðum um bandalag við evrópuþjóðirnar þá látum við ekki niðurlægja okkur með því að leyfa að drullað sé yfir menningu okkar með niðrandi rassaköstum aftur til fortíðar.

Ég minni á það sem ekki má nefna, Ísland hefur einungis verið sjálfstæð þjóð í sjötíu ár, endurtakið þetta tíu sinnum, þetta er hin bannaða mantra.

Ég minni líka á þetta, þeir sem starfa við menningu eru enn að byltast í grasrót, það er endalaus grasrót á landinu, það er aldrei neitt svo töff eða svo þróað að það nái neinum hæðum, nei, það er allt vanþróað, því það fær aldrei frið eða svigrúm til að blómstra, það er bara arfi og grasrót duglega fólksins sem nær að dreifa sér.

Ég minni svo einnig á þetta, læknar nenna ekki lengur að vinna á landinu, þeir nenna ekki að lækna þessa litlu þjóð, hún má deyja út, hún má skíta á sig og verða aldrei neitt annað en drulluklessa á hnattkorti því hún á bara menguð álversfjöll, ógeðslega menguð álversber, litla neðanjarðar grasrót sem starfar við menningu sem enginn skilur, útbrunnið menntakerfi og glatað stolt.

Evrópu sem lítur niður á hana, þjóðina, kanamellu þjóðina, hlandbrunna útigangs kanamelluþjóð.

En æ, spyrjum samt áður en við reiðumst, mætum frelsara okkar og gulldreng með spurningamerki og þögn, athugum hvort hann ekki setur teikn á himininn, myndir í norðurljósin og þá skulum við lofa honum að halda vinnunni og elska hann og virða og hlusta á hann.

Blessuð sé minning minnar óhneyksluðu sálar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vel að orði komist. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.10.2013 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband