5.12.2013 | 02:25
Ísland er á miðaldastiginu í geðheilbrigðismálum.
Á Íslandi er tímaskekkja, ekki bara í geðheilbrigðismálum, heldur í fangelsismálum. Í kastljósi á þriðjudaginn, http://ruv.is/sarpurinn/kastljos/03122013 þar sem var umfjöllun um skotbardagann og harmleikinn í Hraunbergi, kom fram að Íslendingar, sem nú hafa gortað sig í áratugi yfir því að vera velferðarríki, eru á miðaldastiginu þegar kemur að velferð í geðheilbrigðismálum. Réttargeðdeild á Sogni var lokað og nú er geðveiku fólki, sem brýtur af sér, bara hent í fangelsi. Þegar það síðan brýtur af sér í fangelsinu þá er því hent í einangrunarklefa. Það sem verra er og mér varð morgunljóst eftir að hafa horft á þessa umfjöllun, er að í hjarta réttarríkisins, þ.e í dómsalnum, þar er mjög veikt fólk úrskurðað sakhæft einungis til að þóknast fornöldinni. Afhverju drýgir það slíkan mannréttinda sóðaskap. Það stendur ekki upp í hárinu á fornaldarstigi samfélagsins sem það lemur hamrinum fyrir, nei það lyppast eins og silfurskotta með óhugnaði þeim sem ríki okkar býr geðsjúku fólki.
Í stað þess að berja hamrinum í borðið og segja að þeir menn sem ekki eru sakhæfir, séu ekki sakhæfir og því sé ekki hægt að dæma þá í fangelsi, þvinga þannig yfirvöld úr miðalda vímunni og yfir til okkar á 21.öldina . Þá afgreiða þeir eftir hentisemi ríkis, sem er á sama stað og þegar krypplingar voru geymdir í fjárhúsum og flogaveikir í búrum. Þetta eiga að vera lærðir menn og konur, þetta fólk ætti vel að geta sagt nei, þetta getum við ekki gert, svona lágt getum við ekki lagst, við getum ekki dæmt fólk sakhæft þegar það er það ekki, við erum hér á 21.öldinni og höfum verið í háskóla og vitum að þetta má ekki og er siðlaust, það heyrist ekki múkk í þessu fólki, það bara dæmir veikt fólk á litla hraun. Ég veit ekki hvar læknar standa í þessum málum en þarna er eitthvað mikið að.
Ég get varla lýst ógeðinu og óbragðinu sem dreif alla leið upp í sálartetrið þegar sagt var frá því að mjög veikum manni hafði verið fleygt í einangrun og látin dúsa þar í mánuð! OJ! Eftir mánuð kvarta fangaverðir við yfirvöld og segja þetta ekki hægt. Eftir mánuð......þá kvarta þeir, sem bendir til þess að þeir séu samdauna ömurlegu ástandi og alls ekki í stakk búnir til þess að hugsa skýrt. Ég vil gjarnan vita af því ef einhver var búin að láta vita fyrr, reyna að segja eitthvað. Ég hefði ekki getað afborið svona viðbjóð nokkurn tíma, ég hefði talað við mína yfirmenn og skipað þeim að gera eitthvað í málinu strax. Kannski reyndi það einhver, það væri gott að vita hafi einhver gert það, það myndi gefa von um að þarna sé fólk ekki algerlega samdauna stórskemmdum aðstæðum. Að vita að einhver, þó það væri ein sála sem hefði sagt eitthvað við þessu áður en manneskjan var búin að vera heilan mánuð í einangrun.
Þetta bendir líka til þess að þörfin fyrir samfélagið um að fá að vita hvað er að gerast í þessum fangelsum verður brýnni. Þetta er að sjálfsögðu ekki fangelsismála yfirvöldum að kenna, það er ekki Páli Winkel eða Margréti Frímannsdóttur að kenna að hér ríki miðalda ástand í geðheilbrigðis málum. En það er svo sannarlega á þeirra ábyrgð að láta það viðgangast að fársjúkum manni sé haldið í einangrun í þeirra klefum í heilann mánuð, án þess svo mikið sem að segja múkk, það bendir til að þetta fók sé alls ekki starfi sínu vaxið, ekki með sjálfu sér eða eitthvað mikið að siðferðiskennd þess. Þó má það vera að þetta starfsfólk sé samdauna ástandi sem á ekki að eiga sér stað í siðuðu landi. En þá verður það líka að víkja fyrir öðrum sem ekki eru samdauna og lifa á okkar tímum.
Mér finnst alveg fullkomlega galið að láta þetta sem vind um eyrun þjóta, því þó augu landans hafi verið á ömurlegum harmleik manns sem féll af skotsárum eftir byssubardaga við lögregluna þá stakk þetta svo í gegn að ég skil ekki lengur hverskonar land þetta er. Getur einhver bent mér á annað evrópuríki þar sem geðveiku og ósakhæfu fólki er hent í almenn fangelsi og látið síðan dúsa í einangrunarklefa þegar það getur ekki farið eftir reglunum í fangelsinu. Við getum ekki látið þetta viðgangast og einhver hlýtur að þurfa að svara fyrir þetta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.