Færsluflokkur: Bloggar
13.2.2017 | 13:51
Kynfrelsi Karla
Kynfrelsi Karla
Ég elska klæðskiptinga sagði ég við vinkonu mína á kaffihúsinu.
Hún sagðist elska þá líka.
Tilefnið var ungur rosalega sætur strákur sem gekk tígulega inn á staðinn þar sem við sátum og sötruðum latté...not!
Hann bar sig eins og verðlaunatrippi og sveiflaði mjöðmunum eins og tígrisdýr.
Með bleikan varalit og græna slæðu yfir augnalokunum.
Perlum var raðað á augnbrúnirnar og brosið geislaði af hugrekki sem minnti á Mata Hari.
Hendurnar hreyfði drengurinn af þokka á pari við gyðju og neglurnar voru lakkaðar í svörtu.
Klæðnaðurinn var ekkert annað en meðvitund um hátísku með dassi af sjálfi og grundvallar trausti á eigin smekk.
Hann klæddist fölbleikri silkiskyrtu með gylltum bryddingum við úlnliðina.
Fyrir neðan skyrtuna var hann í fallegum sokkabuxum og frá mjöðmum og niður á mið læri hafði hann dregið lítið sari úr fagurgrænu silki.
Yfir þetta allt saman var flauels svört slá með hettu sem hann hafði lagt yfir höfuðið.
Slánna tók hann af sér áður en hann settist.
Auðvitað skoðaði ég skóna.
Þeir voru látlausir en glæsilegir eins og allt annað. Svartir og stæðilegir. Líklega skónúmer 44.
Þó pilturinn væri grannur eins og dansari þá var hann ekki smár.
Ég stari ekki á fólk yfirleitt, ég er ekki dóni, en hann fann að ég horfði á hann og í stað þess að bregðast við af firringu brosti hann til mín þessu áðurnefnda hugrakka fallega sjálfstæða brosi.
Sjálfsagt glápinu vanur.
Ég brosti á móti.
Ég reyndi að segja honum með brosi mínu að ég væri einungis að votta glæsileika hans virðingu mína með góninu.
Maður sér ekki oft svona tignarlega og framúrskarandi fegurð sem kveikir á hugmyndum um hvað við gætum öll verið glæsileg að utan og innan ef við bara nenntum að fylgja eigin smekk og vilja þótt það þýði smá mótvind í seglin.
Drengurinn settist nálægt okkur og þegar hann opnaði munninn til að tala við þjón streymdi fram fágaður bariton hljómur í bland við þokkafullan bassa.
Í gegnum smekklega fagurbleikar varirnar pantaði þetta fallega ungmenni sér glas af hvítvíni og eitthvað annað sem ég heyrði ekki.
Á endanum þurfti mín vinkona að sjálfsögðu mína athygli og við kláruðum veru okkar á kaffihúsinu.
Á leiðinni þaðan og það sem eftir var dagsins leitaði hugur minn oft til þessa orðs „klæðskiptingur““
Önnur orð af svipuðum toga komu mér í hug, eins og umskiptingur og hamskipti.
Orð eru líklega upphaf og endir á því hvernig við hugsum samfélag okkar í grunninn og hvernig við sjáum okkur sjálf og aðra.
Ég er ekki týpan sem langar til að stroka blótsyrði út því ég elska blót.
Ég lít á það sem áskorun að læra að blóta fallega því blóti maður glæsilega hefur maður náð fullkomnum tökum á tungumálinu að mínu mati.
Með þessu er ég að frýja af mér allan orðafasisma.
Orð eru nefninlega stærri en bara eitthvað tæki til að koma upplýsingum á framfæri.
Orðið klæðskiptingur virkar á mig eins og einhver karldurgur hafi stolist í húsmóðurbúning mömmu sinnar frekar en að fallegur drengur hafi ákveðið að slökkva á kúkabuxa-geninu og taka skrefið í átt að silkiblússum og sokkabuxur.
Með allri þeirri áhættu sem það hefur í för með sér í grimmu karlasamfélaginu.
Ekki líður mér eins og klæðaskipting þó ég sé í hermannabússum, levis gallabuxum og köflóttri skógarhöggs skyrtu.
Mér líður að vísu ekki vel í slíkum klæðnaði en mér líður ekki eins og einhverjum umskipting.
Þannig að mín niðurstaða er sú að orðið sé oftar, ef ekki alfarið notað um karlmenn sem klæðast kvenlegum fötum og nota farða og skart til að skreyta sig.
Þessir menn eru litnir hornauga í samfélögum okkar.
Ég er ekki til þess burðug að hafa tölu á því hvað stóru hönnuðirnir í klæðabransanum hafa oft reynt að breyta þessu.
Þeim hefur ekki tekist að koma þeim breytingum í almennan farveg.
Grunur leikur á að þessum fallegu sjálfstæðu mönnum sem brjóta ísinn með þessum hætti sé svo illa tekið í karlasamfélaginu að tilraunir til breytinga brenni í testósterón eldi karlasamfélagsins.
Það er komið fram við þá eins og liðhlaupa.
Við sjáum þessa karllægu fjötra á íslensku alþingi.
Þar skreyta konur sig með litum, perlum, skinnum, bolum, pilsum og hreinlega því sem þeim sýnist.
Ef karlmaður dirfist að brjóta jakkafata hefðina á þeim vinnustað verður það að blaðamáli.
Ég tók eftir jakkafataforminu fyrst sem júniformi þegar ég sá myndina „True Lies“ Með Arnold schwarzenegger og Jamiee Lee Curtis.
Í byrjun myndarinnar eftir smá Bond bragð fara tveir íturvaxnir agentar inn í risa diplómatapartý hjá austurlenskum viðskiptavesír “minnir mig”.
Myndavélin skautar yfir partýið í liprum loftmyndum svo áhorfandinn fær yfirsýn yfir litadýrð kvennana sem eru eins og páfuglar með fjaðrir sínar og skart. Allir karlmennirnir eru eins.
Þeir eru í júniformi eða Tuxedo sem er ekkert annað en afleiða valdaklæðnaðar karla eftir frönsku byltinguna.
Svartur jakki hvít skyrta svartar buxur, lakkrísbindi og kúluhattur.
En sá klæðnaður varð búningur nýrrar valdastéttar karlmanna þegar borgarastéttin varð til eftir frönsku byltinguna.
Þarna í diplómatapartýi hinna sönnu lyga voru þeir ekki bara allir eins klæddir heldur með eins klippingu.
Vald án sérkenna.
Demantarnir eru hengdir á hina aðgerðarlausu konu, hún er skrautið og fjaðrirnar sem á henni hanga eru vísbending um smekk og ríkidæmi karlsins.
Auðvitað er þetta aðeins hliðarumræða á stærra máli í heimi karla.
Heimur ofbeldis og veiðimennsku og gríðarlegrar ábyrgðar.
Allt það hlítur að valda aldagamalli þreytu sem er áræðanlega farin að segja til sín.
Eða kannski má segja augljóslega.
Ekki lái ég þeim þreytuna enda hefur ekkert smá gengið á og það lengi.
Fagrir hlutir og fínlegir eiga að vera fyrir stráka alveg eins og stelpur og miklu aðgengilegri.
Því þeirra heimur víða er grófur og harður og hvað er þá betra en að sveipa silki á harðann skrápinn og púðra skeggrótina.
Lífga upp á ásjónu sína með litum og lifandi klæðum og fínlegum hreyfingum.
Ein ánægjuleg smábylting átti sér stað hér á skerinu um stund. Það var þegar pollapönk gerði reisu á júróvisjón með sitt frábæra fordómalag.
En eftir það fóru strákar að naglalakka sig alveg niður í leikskólann.
Ég vildi óska að það hefði náð að bora sér inn í menninguna.
Er ekki grundvallar atriði kynfrelsis að hætta að nota orð eins og klæðskiptingur.
Og gera svo kannski það sama við orðskrípin sem upplýsa um kynhegðun fólks sem ég hef aldrei skilið hvers vegna hefur gengið svo langt.
Því ástin hefur ekkert með kyn að gera og hverjum kemur það við hver hinn eða þessi sængar með svo lengi sem samlífið er næs fyrir alla.
Jú, það er einhver fegurð í því að stefna á þennan stað og mögulega skref í átt að jafnrétti fyrir karla í karlaheiminum.
Því ef karlarnir okkar eru frjálsir þá verður allur heimurinn betri líka.
Ég er viss um það. Þeir eiga það skilið að fá bæði að skreyta sig skeggi og skarti áreitislaust.
Burtu með fordóma og burtu með orðskrípi eins og klæðskiptingur takk fyrir.
Helga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2014 | 20:00
Bremsufar í Nærbuxum Þjóðar.
Þeir sem héldu að stóra mosku og nauðungar-giftingamálið væri einungis mál sem kjamsað var á fyrir kosningar og yrði ekki til umræðu eftir kosningar höfðu og hafa rangt fyrir sér.
Þessi ömurð er komin til að vera og það voru opinberir aðilar sem báru þessa umræðu inn á gólf hjá borgarbúum og landsmönnum öllum og svei þeim.
Við vitum líka hverjir það voru sem þögðu og stóðu hjá sem er ótrúlegt en satt.
Allir sem eru í ríkisstjórnarsamstarfi með framsóknarflokknum þögðu þegar einn almesti skandall sem um getur í kosningaslag Íslendinga gerði innreið sína með mismunun og fordóma að leiðarljósi.
Ég velti fyrir mér hvað frjálslyndir kjósendur þessara flokka ætla að gera í framtíðinni.
Fólk þetta var í leit að fordómafylgi og á atkvæðaveiðum og það hinum lágkúrulegustu sem um getur og sagan líklega þekkir hér á landi.
Nú er það morgunljóst að kjallarasellur og stofuklúbbar rasisma og þjóðernishyggju hafa stjórnmálaflokka sér að baki og þau stjórmálaöfl eru sjálf ríkisstjórn Íslands.
Ég hélt alltaf að þjóðernishyggju, rasista og nasistaklúbbar væru öfga klúbbar sem samanstæðu af fólki sem hefur það einkennismerki að afneita víðsýni og umburðarlyndi ásamt söguskoðun og þekkingu.
Ég hélt að þrátt fyrir uppgang slíkra afla í evrópu væri ekki ástæða fyrir uppgengi slíkrar ormagryfju hér og hvað þá að ég ætti von á því að innfæddir myndu hefja þann aurslag. Það er eins gott að við höldum því til haga fyrir komandi kynslóðir hver byrjaði.
Ég hélt það vegna þess að við erum með hreint borð við erum fá og við eigum að heita menntuð auk þess höfum við ekkert nema gott haft af þeim fáu útlendingum sem hingað hafa komið.
Auðvitað vissi ég að hér grassera útlendingafordómar og fáfræði en slíkt grasserar líka í Færeyjum.
Framganga frambjóðanda framsóknarflokksins í aðdraganda borgarstjórnar kosninga er með öllu óboðleg og algjör hneisa fyrir þjóðina.
Það er ekki hægt að sitja með hendur í skauti þegar stjórnmála öfl stíga í dagsljósið með svona málflutning og gera kjallarasellum útlendinga haturs og stofuklúbba rasistum kleift að bera fordóma sína og fáfræði á borð og nú með opinbera aðila sér að baki.
Það er nauðsynlegt að halda því til haga að einustu leiðindi tengd múslimum á Íslandi eru á vegum innfæddra siðleysingja sem dömpuðu afsöguðum svínshausum á lóð bænahúss þeirra. Samt leyfir frambjóðandi til borgarstjórnar að spila á nákvæmlega þann hóp og aðstoða við vöxt þess ömurlegasta sem jörðin hýsir. Nefninlega fordómum ásamt fáfræði og kynþáttamismunun að ógleymdri trúarbragða mismunun og öllu því ljóta sem til dæmis og meðal annarra kristnir menn hafa staðið fyrir í mannkynsögunni. Það eru sumsé Íslendingar sjálfir sem ætla að keyra þetta viðhorf áfram hér og veita því fylgi.
Það er ekki síður ömurlegt að fylgjast með viðbrögðum þeirra fulltrúa sem einhver viðbrögð höfðu við þessari raun. Ég tek sem dæmi hræsni Áslaugu M. Friðriksdóttur fulltrúa sjálfstæðisflokksins í borginni, en hún vill fá að vita meira um það hvert framsóknarflokkurinn er að róa. Eins og það sé ekki deginum ljósara.
Það sama gildir um þá sem reyna að klóra yfir skítinn með því að halda fram að þetta útspil sé upphaf nauðsynlegrar umræðu.
Ljósið í myrkrinu er þó að vegna þessa óafturkræfu afglapa þá vitum við nokkurn veginn hvað hausarnir eru margir í þessari ormagryfju.
Þetta er komið inn á okkar gólf og nú þurfum við að vaka yfir því hvort sem okkur líkar það vel eða illa.
Takk fyrir það eða hitt þó heldur.
Bloggar | Breytt 5.6.2014 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2013 | 16:01
Dulbúið hvæs Bjartrar Framtíðar.
Fréttir af JákvæðnifélagiBjartrar Framtíðar og co, hefur farið víða á miðlum í dag og verið af mörgumfýluposanum kallað mjálm.
Margir pósta fréttinni áfeisbúkk með stöðu uppfærslunni “NEI!” Menn og mýs lýsa því yfir að svona smeðja sé alls ekki viðeigandi átímum niðurrifs og neikvæðra strauma, sem óneitanlega má segja að ríði húsumlandsmanna þessa dagana. Mér finnst þetta allt saman vera eins og risastór ogrosalega löng skrýtla og get eiginlega ekki annað en brosað út í annað. Mér erhugsað til Kardimommubæjar þar sem allt varð vitlaust áður en allt varð gott.Það var ekki síst úrræðasemi og jákvæðni bæjarstjórans Sebastian að þakka aðallt gat orðið gott. Það hefði auðveldlega allt getað farið fjandans til íKardimommubæ ef ekki hefði verið fyrir reffilegan og sinnisglaðanbæjarstjórann.
Mínar fínustu tilfinningar og101 prófessorinn minn í litla heila segir mér, að hér séu bestu menn ogflinkustu mýs að misskilja jákvæðni, eða skilmysa, eins og vinur minn ÁsgeirJónsson segir þegar fólk spyr hann hvort hann sé ekki ennþá söngvari í BaraFlokknum. Akureyrsku nýpönk hljómsveitinni. Þá hristir hann góðlega höfuðið ogsegir að það sé allt á skilmysingi byggt.
Jákvæðni er margvísleg ímínum huga, jákvæðni þýðir alls ekki það að sætta sig við ömurlegar aðstæður.Jákvæðni er kænska, það er viðhorf, viðhorf um það hvernig tekið er á slæmummálum. Jákvæðni er strategía, eðaherbragð.
Ég trúi því ekki í eittaugnablik að menntaðir greindarstólpar okkar samfélags viti þetta ekki og hafiekki notað þetta herbragð meðvitað eða ómeðvitað í sínu starfi, bæði til að fásínum málum framgengt og einnig til að sækja sér meðbyr vegna hugmynda ogframkvæmda. Auðvitað er til fólk sem ekki má vamm sitt vita og er tilbúið aðklessa hundleiðinlegri jákvæðni sinni upp um alla veggi í selskap. Tilkynnapersónu sína sem mjög jákvæða og þykjast hafa jákvæðar lausnir á öllu millihimins og jarðar. Vera svo íraunverunni með allt á hornum sér og gjarnan með allt niðrum sig. Það þykir mérpersónulega algerlega óþolandi og minnir mig alltaf á félagsráðgjafa blókinasem sagði við mig þessi orð fyrir hundrað árum ‘er vér vórum’ í vonlausumaðstæðum ,,það eru engin vandamál, bara lausnir” eh..system melt down, var mínupplifun af þessari fræðilegu og mannfjandsamlegu jákvæðni.
Það er hins vegar allt annarbleðill að takast á við ömurlega þróun, sem er fyrirsjáanleg á einhverjuferðalagi með jákvæðni. Það hefur ekki í för með sér endilega að maður rennisér í þeim rússibana á leiðarenda, nei það er hægt að beygja af brautinni meðlausnum sem duga.
Lausnin að hrópa upp yfir sigog kreppa hnefanna yfir því óréttlæti sem yfir mennina dynur, dugir svoyfirgengilega skammt eins og við hljótum nú að hafa orðið vitni að, með öllumbrussu og búsgangi undangenginna ára. Meiraðsegja hin alræmda búsáhaldarbyltinggrætur þurrum skessutárum og fæ ég yfirleitt grænar bólur þegar minnst er á aðdrífa sig nú út með pottana og pönnurnar, þá líður mér eins og fjandans alkinnætli nú að prófa eina ferðina enn að fá sér einn sjúss.
Sú lausn að berja í borðiðvirðist vera skammtímalausn sem ég veit svo vel að við Íslendingar erumafskaplega hrifin af og nánast stundum líkt og fíkin í þær, skammtímalausnir ognöldur í tvo til þrjá daga virðist duga okkur og eftir það er hægt að traðka ogtroða á okkar fáu sálum vel og vandlega, því þá er úr okkur mestur vindurinn.Ég held að við þurfum að feisa það að eitthvað hér er ekki að duga og nú kem égmeð fáeinar jákvæðni hugmyndir.
Hvernig má nýta tíma sinn íþraspontu alþingis, gera orðin megnug einhvers.
Varðandi okkar heittelskuðugufu.
Með manneskjulegu samtali viðþjóðina væri hægt að sýna fram á að við getum búið til fleiri elskendurþessarar ástkæru útvarpsstöðvar með markaðssetningu til unga fólksins. Bara efeinhver nennir að viðurkenna að það er risastór feill að hafa ekki gert það þágæti myndast samtal, þó það væri einungis í lítilli klíku í alþingishúsinu semværi þess megnug að færa þá umræðu inn í stofnunina rúv, drífa gufuna inn ískólana. Það er jákvæð nálgun og fengi jafnvel einhverju áorkað, eins og td. aðafla ungra og ólatra stuðningsmanna. Það er jákvætt. Hljómar eins og vitleysa,en það er einmitt eitt af dularklæðum jákvæðninnar
Varðandi velferðarkerfið.
Það væri hægt að búa tilskemmtilega útfærslu á samfélagi sem ekki hirðir um mannréttindamál, fara yfirþau dæmi um hvernig meðal launaþræll étur upp framtíðarmöguleika barna ogbarnabarna sinna með því að slefa upp þá brauðmola sem af skattalækkunardisknumhnjóta. Jákvæðnihópurinn gæti spurt Kristján Júlíusson hvort honum sé alvegsama um barna barnabörnin sín. Hvort hann vilji að þau búi í samfélagi þar semeyðniveikir og lifrarbólgusjúkir, gigtveik og svöng og ólæs ráðvillt gamalmennisteyti hnefa á götum úti í okkar fámenna landi og geðveikir af öllum kynslóðumkomi snarvitlausir út úr illa skipulögðum og hallærislega hugsuðum fangelsumokkar. Vill hann horfa á það af himnum?
Þetta er jákvæðni, ég sverþað. Hljómar auðvitað eins og undirgefinn dónaskapur, en það er líka eitt afdularklæðum jákvæðninnar.
Varðandi Mannréttindamál.
Þá mætti benda þeim andansletingjum sem sýslað hafa með innanríkismál, kotungum sem óttast hið óþekkta ogþeim sem sýktir eru af hræðsluáróðri og rifrildi neikvæðnis rökfestunnar hér, áað gestrisni er gæfa og gæfuspor þess að taka á móti fólki, með hjartahlýju ogást, hafa eitthvað gott að bjóða, elur af sér góða strauma og visku. Það erjákvætt. Hljómar eins og aristókratískur húsbóndi hafi tekið sér bólfestu ígrámyglulegum pólitíkusum, en það er enn ein dularskykkja jákvæðninnar.
Margt af þessu er bull en þósatt, eins og segir í einni af minni uppáhalds bókum, sem ber nafnið ,, Nothingin this book is true but exactly how things are” Er sú bók skrifuð afsmásnilling sem kallar sig Bob Frissel. Ég endurtek, jákvæðni er ekki mjálm, jákvæðnier herbragð og er hvæs hinna greindu, dulbúið sem mjálm. Vonandi fæ ég ekkiyfir mig hraundranga úr öllum fjórðungum vegna þessara skrifa en ef svo, þáverður að hafa það. Ég er alveg hörð á þessu.
Lifum heil og höfum góðarstundir.
Helga Völundardóttir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2013 | 02:25
Ísland er á miðaldastiginu í geðheilbrigðismálum.
Á Íslandi er tímaskekkja, ekki bara í geðheilbrigðismálum, heldur í fangelsismálum. Í kastljósi á þriðjudaginn, http://ruv.is/sarpurinn/kastljos/03122013 þar sem var umfjöllun um skotbardagann og harmleikinn í Hraunbergi, kom fram að Íslendingar, sem nú hafa gortað sig í áratugi yfir því að vera velferðarríki, eru á miðaldastiginu þegar kemur að velferð í geðheilbrigðismálum. Réttargeðdeild á Sogni var lokað og nú er geðveiku fólki, sem brýtur af sér, bara hent í fangelsi. Þegar það síðan brýtur af sér í fangelsinu þá er því hent í einangrunarklefa. Það sem verra er og mér varð morgunljóst eftir að hafa horft á þessa umfjöllun, er að í hjarta réttarríkisins, þ.e í dómsalnum, þar er mjög veikt fólk úrskurðað sakhæft einungis til að þóknast fornöldinni. Afhverju drýgir það slíkan mannréttinda sóðaskap. Það stendur ekki upp í hárinu á fornaldarstigi samfélagsins sem það lemur hamrinum fyrir, nei það lyppast eins og silfurskotta með óhugnaði þeim sem ríki okkar býr geðsjúku fólki.
Í stað þess að berja hamrinum í borðið og segja að þeir menn sem ekki eru sakhæfir, séu ekki sakhæfir og því sé ekki hægt að dæma þá í fangelsi, þvinga þannig yfirvöld úr miðalda vímunni og yfir til okkar á 21.öldina . Þá afgreiða þeir eftir hentisemi ríkis, sem er á sama stað og þegar krypplingar voru geymdir í fjárhúsum og flogaveikir í búrum. Þetta eiga að vera lærðir menn og konur, þetta fólk ætti vel að geta sagt nei, þetta getum við ekki gert, svona lágt getum við ekki lagst, við getum ekki dæmt fólk sakhæft þegar það er það ekki, við erum hér á 21.öldinni og höfum verið í háskóla og vitum að þetta má ekki og er siðlaust, það heyrist ekki múkk í þessu fólki, það bara dæmir veikt fólk á litla hraun. Ég veit ekki hvar læknar standa í þessum málum en þarna er eitthvað mikið að.
Ég get varla lýst ógeðinu og óbragðinu sem dreif alla leið upp í sálartetrið þegar sagt var frá því að mjög veikum manni hafði verið fleygt í einangrun og látin dúsa þar í mánuð! OJ! Eftir mánuð kvarta fangaverðir við yfirvöld og segja þetta ekki hægt. Eftir mánuð......þá kvarta þeir, sem bendir til þess að þeir séu samdauna ömurlegu ástandi og alls ekki í stakk búnir til þess að hugsa skýrt. Ég vil gjarnan vita af því ef einhver var búin að láta vita fyrr, reyna að segja eitthvað. Ég hefði ekki getað afborið svona viðbjóð nokkurn tíma, ég hefði talað við mína yfirmenn og skipað þeim að gera eitthvað í málinu strax. Kannski reyndi það einhver, það væri gott að vita hafi einhver gert það, það myndi gefa von um að þarna sé fólk ekki algerlega samdauna stórskemmdum aðstæðum. Að vita að einhver, þó það væri ein sála sem hefði sagt eitthvað við þessu áður en manneskjan var búin að vera heilan mánuð í einangrun.
Þetta bendir líka til þess að þörfin fyrir samfélagið um að fá að vita hvað er að gerast í þessum fangelsum verður brýnni. Þetta er að sjálfsögðu ekki fangelsismála yfirvöldum að kenna, það er ekki Páli Winkel eða Margréti Frímannsdóttur að kenna að hér ríki miðalda ástand í geðheilbrigðis málum. En það er svo sannarlega á þeirra ábyrgð að láta það viðgangast að fársjúkum manni sé haldið í einangrun í þeirra klefum í heilann mánuð, án þess svo mikið sem að segja múkk, það bendir til að þetta fók sé alls ekki starfi sínu vaxið, ekki með sjálfu sér eða eitthvað mikið að siðferðiskennd þess. Þó má það vera að þetta starfsfólk sé samdauna ástandi sem á ekki að eiga sér stað í siðuðu landi. En þá verður það líka að víkja fyrir öðrum sem ekki eru samdauna og lifa á okkar tímum.
Mér finnst alveg fullkomlega galið að láta þetta sem vind um eyrun þjóta, því þó augu landans hafi verið á ömurlegum harmleik manns sem féll af skotsárum eftir byssubardaga við lögregluna þá stakk þetta svo í gegn að ég skil ekki lengur hverskonar land þetta er. Getur einhver bent mér á annað evrópuríki þar sem geðveiku og ósakhæfu fólki er hent í almenn fangelsi og látið síðan dúsa í einangrunarklefa þegar það getur ekki farið eftir reglunum í fangelsinu. Við getum ekki látið þetta viðgangast og einhver hlýtur að þurfa að svara fyrir þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2013 | 17:13
Þegar maður er rændur með leifturstríði um hábjartan dag!
Eftir árásina á Rúv og nauðgunina á rás eitt, eða “rás eytt” brandari sem ég sá á feisbúkk, þá er ekkert nema normalt að maður fari aðeins yfir sína prívat upplifun af málinu, sem ástkær eigandi en utanaðkomandi þó. Því þó ég hafi verið svo lánsöm að hafa fengið að gera fáeina gestaþætti á gufunni og alltaf langað að gera meira og langar enn, þá vinn ég ekki þarna og á því erfitt með að setja mig í spor fólksins sem sem hefur þjónað þessari stofnun með rödd sinni og hugviti. Eftir ósköpin þá að sjálfsögðu dundu yfir samskiptamiðla, hugrenningar fólksins í landinu. Það voru hugleiðingar um samúð með starfsfólki sem þó sátu mest í mér. Þó nokkuð margir voru hissa á allri þeirri samúð sem opinberaðist með starfsfólki rúv. Sá tilfinningahiti var borin saman við meinta deyfð þess þegar starfsfólki Landspítalans er sagt upp störfum eftir margra ára þjónustu og tryggð.
Ég er sammála. Ég hef ekkert meiri samúð með Lönu Kolbrúnu eða Pétri Halldórssyni í Tilraunaglasinu, en hjúkrunarkonu á gólfi á Lansanum sem hefur staðið vaktirnar við fáránlegar aðstæður, tekið launalækkun af æðruleysi, endalausar aukavaktir og horft upp á þjónustu við sjúka verða lélegri og setið undir endalausum niðurskurði og vera síðan á endanum rekin. Þrátt fyrir tryggð og heilindi við hálf lamaða stofnun, sem ætti að vera stolt okkar og hinna sjúku í þessu landi.
Ég hef jafn mikla samúð með öllum þeim sem sagt er upp vinnu undir svoleiðis kringumstæðum og í hvert sinn sem ég heyri slíkar fregnir af spítalanum, þá fyllist ég ekki bara samúð með duglegu og ósérhlífnu fólkinu sem þar vinnur, heldur líka fólkinu í landinu.
Mig grunar að það sé smá misskilningur í þessari túlkun, fólkið sem er að bera þessa samúð á vigtina yfirsést dálítið mikilvægt í hamagangnum, því yfirsést kjarni málsins. Líkt og þegar hjúkrunarfólki er sagt upp á heilbrigðisstofnunum, þá beinist samúðin ekki beint að persónunum, áhyggjurnar og samúðin er miklu frekar með hnignun sökkulsins, hjartanu sem slær undir þunga þess lífræna samtals um hvernig við viljum reka gott samfélag sem hægt er að vera stoltur af.
Ástæða þess að nöfn eru nefnd og fjölda uppsagnir á rúv eru persónugerðar, er vegna þess að við þekkjum þessi nöfn, þetta fólk hefur talað við okkur með rödd sinni, þess vegna er verið að nefna nöfn. Sumir þessara einstaklinga hafa spilað stórt hlutverk í menningarlegu uppeldi okkar, eða réttara sagt rödd þeirra. Það er alls ekki vegna þess að fólkið í landinu sé að hampa einhverri elítu, eða sé svo grunnhyggið að það hafi ekki sömu samúð með grunnstoðum heilbrigðiskerfisins og það hefur með menningunni, því það hangir allt saman á sömu spýtunni eða ryðgaða rampinum sem nú mætti kalla.
Þó ég líti ekki á fréttastofu ríkisútvarpsins sem neitt meira en miðlungs og oft á tíðum alls ekki góða fréttastofu, þá breytir það engu um að sú er stofan eina sem hefur skyldur við fólkið í landinu, að vísu hefur reynst erfitt að móta einhverja stefnu varðandi þær skyldur, þær eru yfirleitt bara kallaðar skyldur. Það er nú eitt sem er kannski miður, að það skuli ekki hafa verið rætt og sú umræða markaðsett, eða færð til yngri kynslóða, afhverju hefur það ekki verið gert? Er ein af mínum spurningum. En þetta eru óvéfengjanlegar skyldur rúv, engin önnur fréttastofa hefur slíkar skyldur.
Þó að mér hafi fundist verulega að rás eitt vegið smátt og smátt, með meiri og meiri einsleitni, sem er líklega afleiðingar af endalausum niðurskurði, þá breytir það ekki því að þar eru alveg frábærir þættir, fullir af fróðleik, fróðleik sem ég og ég geri ráð fyrir fleiri í þessu landi myndi ekki hafa leitt hugann að eða skoðað nema ég hefði haft aðgang að þessu blessaða og mikilvæga útvarpi og af því ég nefndi nafn Péturs Halldórsonar, þá er kjörið að endurtaka það, að þáttur hans var verðlaunaður af Siðmennt, enda frábær þáttur vel unninn og skemmtilegur. Þær hefðu sumar kennarablækurnar átt að kveikja bara á útvarpinu í kennslustund og hlusta á tilraunaglasið hans Péturs, þá væru kannski einhver ungmenni með í baráttunni fyrir Rúv allra landsmanna, en hver eru laun Péturs?
Farðu Pétur, með þitt tilraunaglas. Það er uppskeran.
Það sem er skrýtnast í þessu öllu saman er auðvitað nauðgunin á gufunni, sú aftanítaka sem fór þar fram er vægast sagt brútal. Með fullri virðingu fyrir þeim sem missa vinnuna þá er ég ekki alveg að fjalla um það beint. Eins og ég sagði, þá hef ég að sjálfsögðu samúð með þeim sem missa vinnu sem er þeim kær. En nei, ég er að tala um það blitzkrieg, eða leifturstríð á íslensku, sem var háð á augabragði gegn demanti þjóðarinnar. Innrás bakdyramegin í helstu menningargeymslu og þekkingar útbreiðslustofnun fólksins í landinu, þvílík skömm, þetta er með ólíkindum. Við erum gengin svo langt í ágangi á sökkli okkar sem þjóð að bráðum verður vandræðalegt að horfa framan í nágrannaþjóðir okkar, þjóðir sem standa á það sterkum vitsmunagrunni að þær myndu aldrei láta neitt heimskulegt af þessu taginu gerast. Því þó styrjaldir geysi og sorgum mannanna fækki ekki, þá eru flestar siðaðar þjóðir í nágrenni okkar nógu vel menntaðar til þess að vita að um leið og þú missir sprautu menningarinnar þá er þetta búið.
Við, með allt þetta hreina vatn og velsæld, sem við stærum okkur ekki sjaldan af, landflæmi og fegurð, getum bráðum varla horft framan í aðrar þjóðir sem hafa barist fyrir því að halda í menningu sína, gert mistök á mistök ofan, enda eldri og veðurbarðari en við. Þær þjóðir munu horfa á okkur til baka eins og illa gefinn vitleysing með sjálfseiðingarhvöt, sem ætlar, þrátt fyrir að ófarnaðar dæmin blasi við, að fara einbeitt á hnefanum í skítinn. Það kannski hugsar; Æ, það er svo nýbúið að fá sjálfstæði að líkja mætti afleiðingunum við smáríki í Afríku, það er svo vitlaust í fólksfæðinni að það heldur að það geti sturtað menningu sinni í klósettið og það hafi engar afleiðingar, það veit ekki betur blessað fólkið, það þekkir ekki sögu ríkja þar sem slíkt hefur gerst, það skilur ekki að þau ríki sem halda í svona uppsprettu, sem rúv er, þau standa sterkust að vígi allstaðar, og þá skiptir engu máli í hvaða sambönd þau ganga, þau hafa menningu sína með sér. Algerir afglapar, sem kunna ekki að halda í það sem mestu máli skiptir, sama hvernig heimurinn hreyfist og snýst. Þessi þjóð hefur einungis haft sjálfstæði í sjötíu ár, það tekur lengri tíma að ná tindi menntunar og menningar en það, munu lærðir menn á næstu eyjum við okkur segja. Viljum við það? Líklega ekki, meinið er að við sjáum það ekki koma, á meðan slæpist forsetinn okkar um þær koppagrundir sem bjóða ræðupúlt og míkrafón og nýjasta svermið hans er rafstrengsfylleríið.
Við hin, sitjum heima og klórum okkur í hausnum og reynum að skilja hvernig þetta allt saman getur gerst og hvert það leiðir.
Kjarni málsins; Það sem blasir því miður við er vanræksla rúv í viðhaldi á sjálfu sér. Ég skal útskýra hvað ég meina, en þar liggur held ég kjarni málsins, þar liggur ástæðan fyrir því að hægt er að ráðast á stofnunina með þeim sturlaða hætti sem gert var og það af sjálfum dagföður þess, þess sem var settur til að gæta þess ungabarns sem geymir hjarta menningar okkar og tungu. Þvílíkur fósturfaðir, þvílíkt ofbeldi og eyðilegging, raddirnar sem þetta gagnrýna eru of fáar. Við sem höfum skilning á hvaða máli þetta skiptir til framtíðar og fyrir framtíðina vitum að við erum of fá. Afhverju? Jú, það vantar heila kynslóð þarna inn í púslið.
Það var um tíma, mig minnir í kringum árið 2003 eða fjögur, þá kviknaði á peru hjá einhverjum í efstaleitinu og frábærir þættir sem náðu til umræddar kynslóðar, dunuðu á kvöldin og um helgar á gömlu gufunni. Þar var ungt og ferskt fólk sett í dagskrárgerð og ég var farin að hlusta á gufuna á laugardagskvöldum, þegar ég var að sýsla í minni handavinnu, þá hálfgerður táningur ;). Þetta fólk var síðan allt látið fara og flottu þættirnir sem það var að gera fóru af dagskránni. Það var náttúrulega vegna niðurskurðar, en iss það er gamalt mál á okkar mælikvarða, Ég man þetta svona, það má vel leiðrétta mig ef þetta er rangt, það má líka fara í saumana á þessu ef þetta er ónákvæmt.
Þetta er stóra feilið, að hafa ekki markaðsett gufuna fyrir yngra fólkið, fólkið sem er á fullu að skapa og gera og læra. Gufan er því miður dálítið bundin við miðaldra og eldri,fólkið sem nennir ekki að fara út eftir kl. Átta. Unga fólkið hefur ekki fengið tækifæri til að kynna sér þetta menningarbæli, það nennir því ekki sjálft og við klikkuðum alveg á kynningunni.
Afhverju hefur til að mynda rás eitt ekki markaðsett sig inn í skólana? Afhverju hafa grunn og menntaskóla kennarar ekki hvatt nemendur sína til að hlusta á gufuna, með því til dæmis að leggja fyrir hlustun á einstaka þætti, velja sér svo málefni til ritgerðaskrifa, nú eða setja upp fróðleik um tungumálið okkar og nota það í íslensku kennslu, þetta hefði mátt og mætti enn gera. Þetta yrði svo til þess að sú kynslóð sem ekki veit einu sinni að rás eitt er til, myndi allavega verða meðvituð um tilvist hennar og í því væri fengur að von um breiðari samstöðu.
Afhverju hefur menntaskólum og eða grunnskólum ekki verið boðið til gesta þáttagerðar, td. Um ákveðið námsefni eða rannsóknarvinnu á umfjöllunarefni, eða einhversskonar aðkoma að útsendingum útvarpsins? Með því væri búið að vinna hjarta og skilning og væntanlega samstöðu fleiri ungmenna. Þetta eru framtíðar eigendur stofnunarinnar. Ætli þessir framtíðareigendur viti að þeir eru framtíðar eigendur, gleymdist að kynna það? Oh..... Ef einhver dugur væri í okkur og skilningur á mikilvægi gömlu góðu gufunnar, þá værum við annað hvort búin að þessu eða værum að ráðgera þetta.
Þess í stað hefur þessi grunnur, sem nú er grátin með látum, verið látin mala eins og feitur köttur á rjómasprautu og allur sá niðurskurður og afkeppun sem sá grunnur hefur þurft að þola hjá forríkri þjóð, sem allt hefur til alls, hefur lekið framhjá okkur eins og bragðvond mysa sem enginn nennir að smakka. Þetta gæti verið kjarni ástæðu þess að við okkur blasir sorgleg sundrung og grundvallar vanskilningur á þeirri skemmd sem verið er að búa til í menningu okkar.
Hvers vegna er það feimnismál að ræða afkomu rúv? Þegar sannast hefur að menning skilar fáránlega miklum arði, er feimnismál að ræða það hvernig og hvort er hagnaður? hvað er hagnaður? Og er hann nauðsynlegur í rekstri á tungumáli og menningu.
Ég skil vel rökin þau auðvitað, að í grunnþjónustu eigi ekki að þurfa að skila hagnaði, við eigum að hjúkra veikum, við eigum að standa vörð um tannheilsu barna, við eigum að hugsa vel um gamla fólkið. Það gerir sér hver heil manneskja grein fyrir því, sem annt er um mannlega reisn. Það er fáránlegt að þurfa að vígbúast þessum grunnþjónustu liðum til varnar á fjögurra ára fresti og vera þess í millum í viðbragsstöðu hermanns, einungis til að tafsa um hvort hér eigi að byggja á gildum mannlegrar reisnar eða ekki. Auðvitað skiptir ekki máli hvort grunnþjónusta skilar hagnaði eða ekki og það er ekkert minna en aulalegt að sætta sig sofandi við að slíkar stofnanir þurfi endalaust að sæta hálshöggvun vegna ímyndaðs auramissis.
Það má þó vera að öðru gildi um rúv, þá meina ég að samtalið sem við ættum að eiga við hvert annað, um það hvort eðlilegt sé að rúv sé rekið með tapi. Eða hvort eðlilegt sé að rúv sé á auglýsingamarkað. Hvort það sé yfirleitt nokkuð siðlaust að gera það sem þarf til að halda ríkismiðli gangandi. Það er annar trassaskapur af okkar hálfu, að hafa ekki átt þetta samtal. Þetta er jú meira basl fyrir okkur en nágrannaþjóðirnar, það er vegna þess að við erum svo fá.
Hvernig gat útvarpsstjóri, fósturfaðir þessa viðkvæma barns sem rás eitt er, ráðist með þvílíku leifturstríði þar inn í hjarta þess og skemmt og eyðilagt. Hvers vegna í ósköpunum hóf þessi blessaði umsjónarmaður og húsvörður eigna okkar ekki samtal við okkur? Því í fjáranum kallaði maðurinn ekki þjóðina til fundar við sig og bað um hjálp, bað fólkið í landinu um að koma með hugmyndir, eða varpaði fram hugmyndum sjálfur. Afhverju bjó hann ekki til samtal um þessi ósköp.
Eins og þetta lítur út fyrir mér; Hvað gerir maður í sökkvandi skipi, maður talar við fólkið, leitar hjálpar, ef manni er annt um dallinn og áhöfnina og sjálfan sig það er að segja, og ekki með lausa skrúfu í höfðinu. Hvað gerir maður ef á að svíkja og ræna fjöregginu sem maður hefur til umsjónar, maður kallar eigendur þess til og leitar hjálpar, maður býr til samtal, kallar eftir hugmyndum, ef maður er ekki með lausa skrúfu í höfðinu. En það gerði fósturpabbinn á rúv, Páll Magnússon ekki, hann leit út fyrir mér, sem sjokkeruðum áhorfanda, eins og hann sé með lausa skrúfu, eða væri það á þessari stundu og jú, ég hef velt fyrir mér ýmsum samsæriskenningum, en í rauninni, þegar upp er staðið þá var fartin og háttalagið á manninum bara þannig að það var eins og það hefði skrúfa losnað og kannski er hún laus enn. Samsæriskenningin um að hann hafi ákveðið að gera þetta svona, í reiði sinni yfir fyrirætluðum niðurskurði í fjárlögum er ekki galin en gengur ekki upp. Ef þetta er sjokkaðferð á stjórnvöld þá hefur það plott ekki verið hugsað langt hjá honum. Ef með þessu háttalagi, hann vildi segja okkur að það sé verið að stela peningum frá rúv til að setja í annað þá hefði hann getað sagt okkur það.
En rán er akkúrat orðið, það er nefninlega verið að ræna þetta elskaða menningarbarn okkar, stela úr því hjartanu um hábjartan daginn. Þátturinn gæti heitið ,,Stolið og stælt riðið og rænt í dagsbirtu með kaffi og vínarbrauði” En, nei, í stað þess að ræða við eigendurna, sem hann er í vinnu hjá, þá missir hann vitið virðist vera, rýkur eins og ruglaður hermaður vopnaður eyðileggingu, beint inn í rætur þess unga trés sem verið er að rembast við að gróðursetja og kastar þar sprengjum skemmdarvargsins. Afhverju gerir hann þetta?
En vitleysan endar ekki þar, síðan er hann frávita í æðakerfi vöggunnar í efstaleitinu, snarvitlaus að hella fúkyrðum yfir starfsmann þar inni, starfsmann sem kemur með eina og einfalda spurningu, sá fær yfir sig atgervi og fúkyrði manns sem virðist alls ekki í jarðsambandi. Þetta get ég leyft mér að segja því ég horfði á myndband með þessum upplýsingum. Maðurinn var vitstola á þessu augnabliki.
Síðan mætir hann í viðtalsþátt á téðri sjónvarpsstöð, þar hagar hann sér eins og hann sé enn vitstola, iðar í skinninu líkt og það hafi geimvera tekið sér bólfestu í honum og sé enn að koma sér fyrir. Hann talar ruglingslega, um ekki neitt, er ekki undirbúin og segir sömu hlutina oft. Mér hálf leið illa að horfa uppá þetta, ég fór strax að hugsa upp allar bíó fantasíurnar um hvernig það tekur smá tíma fyrir geimveruna að ná áttum í nýjum líkama.
Viðbótar raunin var svo sú, að sjá hvað fólk hafði um þetta að segja, það sagði að Simmi hefði nú verið töff, besta viðtal hjá Sigmari og etc....Á þessum tímapunkti er mér farið að líða verulega illa, því Sigmar er ekki að tala um neitt sem máli skipti, ekki frekar en Páll Magnússon. Þeir voru ekki að tala um nokkurn skapaðan hlut sem máli skiptir.
Það er vissulega ömurlegt að reka fólk, og enn ömurlegra að gera það á jafn glataðan hátt og þarna var gert, og að hlusta á ringlaðann manninn tala um ráðleggingar fínustu sérfræðinga í því samhengi var í skársta falli vandræðalegt, ekki spurði Sigmar hann út í hvaða sérfræðingar það voru, eða þá heldur í hverju þeir eru sérfræðingar, mig langar enn að vita það, eru það einhverskonar rekstrarsérfræðingar, fróðir um hvernig maður rekur fólk, hvar eru þeir menntaðir? Þetta hljómaði eins og algert prump og ég held að þetta hafi í besta falli verið viðrekstrarsérfræðingar.
En það er líka svo hjákátlegt að samtal þeirra skuli ekki hafa fjallað um kjarna málsins, sem er alls ekki fólkið sem var rekið, og heldur ekki hvernig það var rekið. Sigmar þessi hefði átt að inna útvarpsstjóra eftir því hvers vegna það var rekið, og ekki taka þetta auma svar um fjárlagafrumvarp sem varla er komið fyrir þingið sem gilt svar, en þeir voru báðir jafn ruglaðir.
Það sem var svo bersýnilega óþægilegt við þetta allt saman er hvað útvarpsstjóri var fullkomlega óundirbúin, líkt og hann hafi aldrei gert ráð fyrir að þurfa að ræða þetta við einn né neinn. Þannig að það heldur áfram að vera hulin ráðgáta hvað manninum gekk til með þessum skaðræðis brussugangi. En gott fólk, þeir töluðu ekki um neitt sem máli skiptir og hafa enn ekki gert og það er vægast sagt skömm að því að þessi maður, dag og næturpabbi menningarvöggunnar okkar, skuli ekki þá og ekki enn, hafa komið með neitt útspil, annað en það að stama út úr sér einhverri þeirri beygluðustu afsökunarbeiðni sem ég hef heyrt, til eins starfsmanns sem hann orgaði fúkyrði á. Þrugla síðan einhverja eymdarinnar vitleysu eins og hann vissi ekki haus né sporð á hver umræðan væri eða til hvers, mjög ringlaður. En þetta eru líklega afleiðingar af ömurlegri samræðuhefð og stjórnsýsluhefð okkar lands og þess glataða mórals sem fylgir slíku geimi.
Það er verið að ræna skattfé, menningu og sjálfsvirðingu af okkur og það er ekki einu sinni gert á smartan hátt, það er ekki refur þarna sem hlær í holu yfir töffuðu plotti sínu. Nei, bara örvinglaður maður sem lekur fúkyrðum og hikstar svo og stamar opinberlega eftir gjörninginn. ætlum við að taka því þeigjandi eins og einhver þrælalýður?
Helga Völundardóttir.
Bloggar | Breytt 4.12.2013 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.11.2013 | 02:38
Eymdin er Klám mennskunnar. Faraldur eða Væðing?
Dönsk síða hefur gengið til skiptanna manna á milli á alnetinu með sjálfsmyndum af ,,mæðrum" Eða allavega konum með börn, í annarlegum eða kynferðislegum tilburðum.
Myndir hér: http://www.nattogdag.no/artikler/8085/bildeserie-42-moderlige-selfies#.UnwFaqDsQm
Henni hefur verið póstað á nokkrum stöðum á feisbúkk undir vangaveltunni um hvort hér á jörðinni sé ,,klámvæðing" eða ekki.
Eymd má ýmis nöfn gefa, fólk þvargar um hvað hún heitir, hverjir undirflokkar hennar eru, hvort hún er andleg eða veraldleg, hvort hún veður stjórnlaust yfir raunheima og netheima, hvaðan hún kemur og hvernig hún leggst á mannkynið, hvort hún er faraldur, eða heimalagaður kokteill úr staðbundnum jarðvegi.
Hvað er væðing?
Af hverju stafar slík væðing, hver er rót hennar?
hvaðan kemur slík væðing og hver, eða hvað 'væðir' ef einhver?
Hvort slíkt er skaðlegt og hvernig þá?
Á hvern hallar?
Er um faraldur að ræða?
Hver er munurinn á faraldri og væðingu?
Og ekki síst hvort umtöluð 'klámvæðing' sé rót einhvers eða afsprengi?
Fólk getur alveg kallað mannlega niðurlægingu ýmsum nöfnum, ég nenni lítið í orðaleiki með það.
Í fæstum þessara mynda er að finna mannlega reisn, nema síður sé og það sem fer í hjartað á mér eru börnin á myndunum OG...... ég geri mér grein fyrir tóninum í þessu, en umhverfið líka, umhverfið á sumum þessara mynda er einhvern veginn ömurlegt.
Ekki það að ég þoli ekki óreiðu, jú ég þoli óreiðu, en að taka myndir af rassgatinu eða brjóstunum á sér í spegli, með fokk fingurinn uppi og nakið eða grátandi barn í miðri ruslahrúgunni fyrir aftan sig, er mér bara svo óskiljanleg háttsemi og svo hörmulegur smekkur fyrir lífinu, að það brakar í heilanum á mér við að spyrja þeirra spurninga sem vakna, við skoðun þessara mynda.
En að hrópa upp yfir sig 'Klámvæðing' hún er til, ég sá hana á internetinu! er fyrir mér aðeins of þunnur þrettándi.
Sumar þessara mynda gefa sterka tilfinningu, um andlega fátækt eða mannlega eymd. Þó gætu þau skilaboðin verið villandi á einhverjum myndanna.
Þær slá mig flestar sem sorglegar,
Reyndar eru einhverjar sitúasjónir þarna, þar sem mamman gæti verið að taka myndir af magavöðvum sínum, á meðan barn rótar í veski inni á baði, eða af nýjasta tattúinu, já gæti lúkkað illa og slitið allt mannlegt úr samhengi, það er eðli ljósmyndarinnar, fjandans augnablikið, en það fellur um sjálft sig einhvern veginn því þær eru að taka þessar myndir sjálfar, og bjóða alheimi um ókomna tíð, eða svo lengi sem hann endist á þessu formi.
Engu að síður eru flestar þessara mynda dapurlegar með einhverjum hætti og tilfinningin með börnunum. Þessum börnum og öðrum í heiminum, sem dæmd eru til að þrífast við lítið gefandi og jafnvel ömurlegar aðstæður. kannski með algjörum fávitum, fullorðnu fólki sem var í höndunum á fávitum eða í glötuðum aðstæðum og þekkir ekki annað, hvað veit ég.
í löndum þar sem nóg er til af vatni og mat og velferð, eða löndum sem auglýsa sig þannig, og þjóðfélagskerfi sem þykist umlykja þegna sína með menntun og velferð. Þá er samt eymdin víða, hún er ýmist af andlegum eða veraldlegum toga, og hvers vegna er það, er það klámvæðingunni að kenna? Eða má vera að tími sé til komin að spyrja sig vel og vandlega, hvaða samfélags mein er hér á ferðinni, er þetta klámfaraldur eða klámvæðing?
Og þar sem oftast er talað um ,,væðingu" í þessum málum, hver er þá hennar rót?
Er það ekki þannig að ef um væðingu er að ræða, en ekki faraldur, þá er eitthvert afl á bakvið slíka væðingu, þ.e væðingin er þá viljaverk eða hvað? Mistök? hvaðan þá?
Eiga væðing og faraldur eitthvað sameiginlegt?
Má þá ekki að sama skapi tala um;
fátæktarvæðingu?
Ólæsisvæðingu?
undirheimavæðingu?
alsnægtarvæðingu?
heimskuvæðingu?
ofbeldisvæðingu?
krakkvæðingu?
Er í það minnsta ekki kominn tími til að ræða saman, í stað þessara upphrópanna, slíkt leiðir ekkert, fólk sem telur sig geta gert gagn og hjálpað heiminum úr ljótri prísund ætti að skoða það.
ps:
Sumar þessara mynda sitja í mér og valda hrolli, skilja eftir óbragð, ég tengi það ekki við neina eina tilfinningu, heldur margar flóknar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2013 | 01:02
Leti og ómennska embættismanna.
Smá tilvitnun í Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur hér:
,,Var fundarstjóri hjá ADHD samtökunum í dag og í gær á glæsilegri ráðstefnu í tilefni af 25 ára starfi samtakanna. Þar var ekki kjaftur mættur frá landlæknisembættinu eða heilbrigðis, mennta-og félagsmálaráðuneytinu og engir fjölmiðlar. Þarna voru saman komnir einhverjir helstu fræði og vísindamenn samtímans í þessum efnum, ýmsir langt að komnir og fluttu merkilega fyrirlestra um röskunina ADHD og fylgifiska, meðferðarúrræði voru rædd, niðurstöður merkilegra erlendra og innlendra rannsókna kynntar, fjallað um málefni íslenskra fanga á ítarlegan hátt og tengsl ADHD og afbrota. Rætt var um nám og kennsluaðferðir fyrir kennara sem vinna með ADHD börnum. Umfangsmikil umræða um ADHD fullorðinna og leiðir til þess að bæta líf þeirra. Heilmiklar upplýsingar um lyfjagjafir og ráð til sérfræðinga innan geðbatterísins.Þetta var án gríns svo glæsileg ráðstefna að furðu sætir að enginn ofangreindra skyldi sjá sér fært að mæta."
Þetta segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í færslu á feisbúkk fyrr í dag.
Mér finnst þetta alveg fáránlega alvarlegt mál.
Að ekki nokkur embættismaður mæti á slíka ráðstefnu
Afhverju ekki?
ADHD varðar almannaheill, varðar lýðheilsu, varðar börnin og framtíðina.
Fangelsin eru full af ungu fólki, aðallega karlmönnum, eða drengjum með ADHD.
Sjálfsagt eru hinir ömurlegu undirheimar landsins fullir af fólki með ADHD líka, undirheimar sem stækka og stækka og verða ljótari og verri einmitt vegna tregðu og leti embættismanna, af því að embættismennirnir nenna ekki að taka þátt í lausnarmiðuðum umræðum, fræðslu miðlandi hugmyndum eða neinu slíku.
Embættismennirnir eru þó þeir sem blaðra mest og mest eru kallaðir til vanti blaður á fjölmiðlum, sem er annar óþolandi fávita faktor 'skjús mæ frens' hér á landi.
Þeir augljóslega vita ekkert í sinn haus, þeir nenna ekki að fræðast.
Hvaða endemis vitleysa er það síðan að vera endalaust að hóa í fulltrúa framkvæmdarvaldsins til álitsgjafar, skrafs og ráðagerða, þegar þeir eða aðstoðarmenn þeirra nenna ekki að hlusta á þá sem gera sér ferð um að fræða þá um eitthvað af því, sem skiptir augljóslega gríðarlega miklu máli í öllu stoðkerfi samfélagsins.
Nei, þeir ætla að sitja á rassinum og ræða hvernig á að fara að því að stækka fangelsin og fjölga þeim, ekki hvernig á að minnka þau og fækka þeim, það er umræða beyond þess hugarflugs sem embættismanni gefst miðað við reynslu, uss, það á að gera einhverjar lágmarks kröfur til þessa fólks.
En að öllu gamni slepptu þá er þetta fólk á launum hjá ríkinu, situr í nefndum og hangir í nefndum og tekur í nefið á nefndarfundum, drekkur frítt kaffi og ferðast í leigubíl á kostnað ríkisins og ætti að vera skikkað til að fræða sig um lýðheilsumál og almannaheill og auðvitað ýmislegt fleira sem því við kemur.
Svona btw. Er enginn afbrotafræðingur starfandi á íslandi? Það heyrist ekki múkk í neinum þessa dagana, vikurnar, mánuðina, árin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2013 | 03:59
Blessuð sé minning minnar óhneyksluðu sálar og blessuð sé minning post kólóniseraðrar þjóðar.
Forsætisráðherra Íslendinga fór í smá frí. Hann skrapp í smá frí og var ekki við í nokkra daga.
Að vísu fáeinum vikum eftir að þing var sett, en hann er jú maður og mannlegur og gæti þurft að taka sér frí á vandræðalegum augnablikum rétt eins og allir á sama vinnustað og allir sem tilheyra þessari þjóð.
Samt eru flestir reiðir, reiðir út í forsætisráðherrann fyrir að taka sér frí.
Hann er ekki í náðinni með það frí sitt.
En hvers vegna er það? Jú, þegar hann var að í óða önn við að ráða sig í vinnu hjá einni þjóð, lítilli og fámennri þjóð sem hefur einungis haft sjálfstæði í sjötíu ár.
Þjóð sem hélt hún væri rík, þjóð sem taldi sig eiga möguleika í framapoti þjóða á hnettinum.
Þjóð sem síðan rann á rassinn með sitt pot, þjóð sem setur nú rúmlega hundrað heimili á nauðungarsölur á einni viku, þjóð sem tapar eigum sínum og sjarma hægt og bítandi í fátækt og álryki, þjóð sem telur undir fimm hundruð þúsund hræður en er samt búin að koma upp fátæktargildrum fyrir einstaklinga og fjölskyldur í flestum hornum og það með einskærri græðgi og heimsku.
Þá sagðist þessi forsætisráðherra geta bjargað þessari þjóð, bjargað fólkinu, fólkinu sem er skítsama þó að þessi banki eða hinn sé í eigu þess eða hins, skítsama þó að þorskurinn í ódýru búðunum sé sprautaður með saltvatni og sé í raun alls ekki ódýr heldur rándýr, skítsama þó menntakerfið sé í molum, skítsama þó heilbrigðiskerfið sé innétið epli, skítsama hvar einhver ímyndaður spítali er staðsettur og skítsama um evrópusambandið og skítsama um landlæg brot á alþjóðasáttmálum, barnafyrirlitningu og útlendingahatur.
Það er varla við því að amast, fólkið hefur áhyggjur af öðru, það setti sínar áhyggjur í forgangsröð, hvaða heimilislausi durgur eða drós nennir að spá í evrópusambandið eða saltsprautaðann þorsk.
Það hefur annað á sinni könnu, það hefur aleigu sína á sinni könnu.
Við ráðninguna var það hið eina sem það gat hugsað um, að missa ekki aleiguna og öryggið, þ.e.a.s heimili sín. Það var þess vegna sem það ákvað að ráða þennan mann í vinnu og þess vegna sem hann fékk vinnuna og því er hann forsætisráðherra nú.
Samt má hann ekki taka sér frí.
Hann fer samt í frí og margir verða reiðir, en það eru líka margir sem hía á þá reiðu, spyrja út í vindinn hvaða bjálfaskapur það sé að trúa pólitíkus.
Ég velti fyrir mér hvort þeir, sem slíkt um spyrja, ljúgi sjálfir þegar þeir ráði sig í vinnu, eða þyki það sjálfsagt að draga fjölskyldur í heilu löndunum á tálar. Nú hefur hluti þjóðarinnar uppnefnt þann helming sem vildi ráða forsætisráðherrann í vinnu, auðtrúa bjálfa.
Ok, kannski svo.Það kemur svo glatað út, frí forsætisráðherrans, það kemur út eins og hann hafi fyrir löngu síðan ákveðið að láta aðra tala fyrir sig eftir ráðninguna, fólkið er móðgað, hann talar ekki lengur við það.
Það er fjármálaofurmenni sem er fjármálaráðherra landinu litla, sem talar fyrir forsætisráðherrann, hann segir, með báðar hendur á lofti, við fólkið í landinu, að það sé ekki nokkur leið að vita hvernig á að standa við þessi skrýtnu loforð forsætisráðherrans, heimilin verði að fara, fólk verði að láta sér götuna nægja og syrgja ekki um of aleiguna sína og stolt, af því að þetta séu undarleg og ójarðnesk loforð, þá sé auðvitað ekki hægt að segja til um hvenær þau verði að veruleika, því áhersla vafans sé strand á hvort þau séu raunveruleg, loforðin sko.
Kona sem sér um innanríkismál í landinu litla segir að nauðungarsölur á heimilum séu eins og rigningin, ekki hægt að stjórna neinu, alveg stjórnlaust ferli og meira að segja veraldlega varið í stjórnarskrá, því handónýta plaggi.
Hvort fólkið í landinu haldi að hún sé með einhverja nauðungarsölu fjarstýringu í skúffunni sinni, nei hún sé ekki með svoleiðis, ekki frekar en á skýin.Það megi líka alls ekki vera að fikta svona með nauðungarsölu náttúrulögmálið, því það gæti móðgað þá sem þegar hefðu verið náttúrulega nauðdregnir út af heimilum sínum.
Ég er svo manntrúa, ég gef alltaf sjens, ég er að vona að forsætisráðherrann sé krútt sem leiðist svona hjal í þeim sem hann vinnur með, hann hafi jafnvel þurft á fríinu að halda til þess að leiða þvargið í þeim hjá sér, þurft að skreppa og skrapa saman vopnum sínum, til að skjóta fjármálaráðherra og innanríkisráðherra ref fyrir rass.
Hann er refur, hann gæti verið að finna leiðir til að þagga blíðlega niður í þeim svo hann geti í friði efnt sín loforð og komið trúgjörnum og vongóðum meðmælendum sínum á óvart og öllu fólkinu í landinu í leiðinni.
Kannski kemur hann úr fríinu og segir að allt sé nú klappað og klárt, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra séu þreytt og viti ekki hvað þau segi frá degi til dags þessa dagana.
Við fyrirgefum það, fólkið í landinu fyrirgefur það, annað eins hefur nú gerst.
Á meðan við bíðum klórum við okkur í hausnum og reynum að endurskilgreina eignaréttinn í handónýta stjórnarskrár plagginu okkar, það er svo erfitt að hafa haldið í sjötíu ár að það megi ekki gefa það sem aðrir eiga, sérstaklega fyrir þá sem híma utan í vanga og brjóstmyndum af Jóni Sigurðssyni.
Flestir, af fáum, héldu að það mætti ekki gefa það sem aðrir eiga, þessar vangaveltur um eignaréttinn er hægt að dunda sér við, meðan beðið er eftir forsætisráðherranum, gulldrengnum og bjargvættinum okkar.
Forsætisráðherrann gæti jafnvel flýtt sér smá, haskað sér, áður en fólkið í landinu fer að rannsaka hverjir það eru sem eru að kaupa heimilin, heimilin sem eru boðin upp í hundraðavís á einni viku, hverjir eru að kaupa þau forsætisráðherra?
Er það fína fólkið í slitastjórnum bankanna?
Er fína fólkið með peningana að kaupa heimilin á slikk?
Ha?
Ó, ekki svo?
Nú?
Hverjir þá?
Flýttu þér forsætisráðherra og frelsari, annars færðu svona leiðinlegar spurningar bráðum, þær eru alveg að koma.
Hann er upptekin maður, hann nennir ekki að svara svona nærgönglum spurningum, hann er skynsamur, hann flýtir sér ábyggilega áður en fólkið fer að spyrja hvasst.
En ef ekki, ef hann haskar sér ekki á okkar fund, þá er ég, sem hripa þetta niður í trúgirni og barnaskap bara með eitt ráð, áður en við, fólkið, gefum hann og hans ráðahirð alveg og endanlega upp á bátinn og rekum hann og hans ráðahirð með skít og skömm.
Það er að taka á móti manninum við heimkomu, fjöldamóttaka, allir að taka á móti honum.
Ekki með V for Vendetta grímur, ekki með satanískum níðstöngum, nei, enga vitleysu, þetta er raunveruleikinn, ekki neitt fantasíu vesen, það er of mikið, það má ekki vera með of mikið vesen, bara rólegt fólk í litlu landi sem er í klessu, skítaklessu.
Hans orð, gulldrengsins okkar, frelsarans, eru ekki brostin enn, nei nei, sendum honum heldur spurningamerki, því við viljum spyrja, verum hrein, spurningamerki er hreint, hrein skilaboð, ein spurn.
í stað þess að berja potta og pönnur þá búum við til skilti, lítil skilti og stór skilti, hvað sem til tekst og teiknum á þau spurningamerki, við sýnum honum spurningamerkin, við gólum hvorki né görgum, við spyrjum, við vöndum okkur, við erum kurteist fólk.
Við spyrjum bara, við byrjum á að spyrja, við erum eitt spurningamerki, þetta hefur aldrei komið fyrir okkur áður, allavega sagði amma það, aldrei, ekki í sjötíu ár.
Ef ekkert kemur svarið þá er þetta búið, þá höfum við engu að tapa.
Að öllum var logið, það var einhver ástæða fyrir því, ábyggilega gamla og klassíska íslenska bænda og höfðingjasamfélags ástæðan, græðgi og heimska, og sama hve þunn við erum og sama hve örvæntingarfull og hve skítsama okkur er um allt og alla þá látum við ekki ljúga að okkur er það.
Við látum ekki henda okkur út úr húsunum okkar, út á götu þar sem ekkert bíður, í borg þar sem enginn getur leigt sér skonsu nema að vera með hreint nafn og eiga peninga á við dópsala og handrukkara.
Við látum ekki niðurlægja okkur í ónýtri spítaladruslu þar sem enginn læknir nennir að vinna, við sættum okkur ekki við að neita börnum okkar um að læra tónlist, dans eða taka þátt í menningu, og fyrst það á að neita okkur um að vera í viðræðum um bandalag við evrópuþjóðirnar þá látum við ekki niðurlægja okkur með því að leyfa að drullað sé yfir menningu okkar með niðrandi rassaköstum aftur til fortíðar.
Ég minni á það sem ekki má nefna, Ísland hefur einungis verið sjálfstæð þjóð í sjötíu ár, endurtakið þetta tíu sinnum, þetta er hin bannaða mantra.
Ég minni líka á þetta, þeir sem starfa við menningu eru enn að byltast í grasrót, það er endalaus grasrót á landinu, það er aldrei neitt svo töff eða svo þróað að það nái neinum hæðum, nei, það er allt vanþróað, því það fær aldrei frið eða svigrúm til að blómstra, það er bara arfi og grasrót duglega fólksins sem nær að dreifa sér.
Ég minni svo einnig á þetta, læknar nenna ekki lengur að vinna á landinu, þeir nenna ekki að lækna þessa litlu þjóð, hún má deyja út, hún má skíta á sig og verða aldrei neitt annað en drulluklessa á hnattkorti því hún á bara menguð álversfjöll, ógeðslega menguð álversber, litla neðanjarðar grasrót sem starfar við menningu sem enginn skilur, útbrunnið menntakerfi og glatað stolt.
Evrópu sem lítur niður á hana, þjóðina, kanamellu þjóðina, hlandbrunna útigangs kanamelluþjóð.
En æ, spyrjum samt áður en við reiðumst, mætum frelsara okkar og gulldreng með spurningamerki og þögn, athugum hvort hann ekki setur teikn á himininn, myndir í norðurljósin og þá skulum við lofa honum að halda vinnunni og elska hann og virða og hlusta á hann.
Blessuð sé minning minnar óhneyksluðu sálar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2010 | 15:13
Hundómerkilegur Alvarleiki
Hulda B Hakonardottir: Um leið og ég óska Magnúsi til hamingju undrar það mig að fréttamenn Kastljóss hafi ekki getað bent manninum á úrræði sem honum stóðu til boða í fyrri þætti sínum þ. 22. sept. s.l. Annað hvort var Kastljós meira upptekið af að geta verið með tárvott dramaupphlaup í þætti sínum eða fréttamenn þess vissu ekki betur. Hvorugt er gott til afspurnar. Í gleði-innslagi kvöldsins var svo skautað létt fram hjá þessu með greiðsluaðlögunina en Magnús þaulspurður hvort hann væri nú ekki glaður. Þvílík vinnubrögð
Sammála og miklu alvarlegra mál en rætt er almennt um. Ég er löt! td. og að fylgjast með fjölmiðlum er ekki e-d sem ég nenni yfirleitt. Aldrei, svo ég muni, hef ég legið eins mikið yfir innihaldslausu þvaðri á ævinni, í næstum manískum eltingarleik mínum við fjölmiðlaumfjallanir í bæði sjón, rit og talmiðlum. Að vísu, að undanskyldum þeim frábæra þætti á rás 1 ,,speglinum”.
Tekur tappann úr þegar hver og einn einasti ég meina barasta nákvæmlega hver einasti! fréttamaður í óverðskuldað nefndum fréttaskýringar og menningarþætti ríkissjónvarpsins ,,Kastljósi" framleiðir á færibandi, upp á dag, hundleiðinlegt og hundómerkilegt sjónvarpsefni, hvar menn sýna af sér fullkomið getuleysi í að grípa áhugaverð móment og búa þá til áhugavert frétta og sjónvarpsefni í leiðinni.
Viðhafa með látum síendurtekið stagl og gersamlega hugmyndasnauðar spurningar, lesnar upp af blöðum og svo augljóslega niðurnjörvaðar fyrirfram að úr verða tóm leiðindi
Viðhafa eilíft gjamm og framítökur, þannig að viðmælandi á í mesta basli, við að svara þeim spurningum sem hann er þó spurður og í þokkabót, ég leyfi mér að bæta við, er atgervi þeirra með þvílíkum leikrænum tjáningum að það mætti halda, í sumum tilvikum að þeir/þær, eigi eitthvað persónulega sökótt við viðmælendur sína, eða séu staddir/ar í grískum harmleik en ekki bara Íslenskum raunveruleik.
Hamagangurinn er slíkur að úr verður akkúrat ekkert vit. Maður spyr sig, eru þetta taugarnar að gefa sig? Eða eru uppi skipulögð áform um að hafa þetta svona? Eða eru menn bara svona.........utan við sig.......nei fjandinn hafi það.
Ég sendi svo í lokin kveðju með von um bata, til þess fréttafólks sem vinnur við þáttinn ,,Kastljós” því þetta hlýtur að vera einhver krankleiki, eða sinnisástand að viðhafa svona kjánalæti, að telja það fínt að framleiða svona drasl ofan í fólkið.
Ps: Hvort heldur sem er, þá er kannski full ástæða til að biðja fallega um að þessu endemi linni, ég bara get bara ekki trúað því að landsmenn nenni þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2010 | 12:53
Ringulreið og öskureið.
Mér er það fullkomlega óskiljanlegt að Bjarni Ben skuli sitja í kastljósi og stæra sig af óánægju fólks í landinu og fjargviðra þar um komandi mótmæli. Hvenær hefur hann, eða hans félagar staðið í mótmælaaðgerðum varðandi yfirleitt nokkurn skapaðann hlut. Sigurvissa mannsins var vægast sagt óþolandi í kastljósinu í gær og velti ég fyrir mér hvaðan í andskotanum það yfirlæti kemur og samkvæmt þessari grein hérna, hefur Björn Bjarnason gengið til liðs við mótmælendur. http://www.smugan.is/fra-ritstjorn/allt/thora-kristin-asgeirsdottir/nr/4342
Je minn eini. Vá hvað þetta er ruglingslegt. Ég er ein af þeim sem er ekki ánægð með seinagang stjórnvalda í málefnum skuldara, las samt greinina hans Ármanns Jakobsonar og er honum sammála um eitt og annað.
http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/nr/4332
Það sem mér hefur fundist óhuggulegt við málflutning sjálfsæðismanna er flest allt, en óhuggulegast finnst mér þó stagl þeirra um hjól atvinnulífsins. Þegar Bjarni Ben, formaður sjálfstæðisflokksins byrjaði enn og aftur að stagla, að hér þyrfti að koma atvinnuvélamaskínunni í gang, þá bara langaði mig að gubba. Ég er kannski ekki rammskyggn en mér finnst bara svo augljóst hvað hann er að fara, hann er í grundvallar atriðum bara að tala um að drífa áfram virkjanaframkvæmdir.(Helguvík) Ýta því af stað með sama offorsi, sömu heimsku og sama þrugli og flestir þeir sem mótmæltu árið 2009 voru einmitt að reyna að losa sig við. Vonandi tekur enginn mark á þessum manni og því sem hann stendur fyrir. Við hinn almáttga ás, vonandi.
Ég er að vísu þeirrar skoðunar að margt mætti fara betur. Ég er líka alveg sannfærð um að ríkistjórnin myndi alls ekki tapa á því að ná sér í faglega ráðgjöf og aðstoð, sem hún gerir ekki.
Mér finnst líka alveg fullkomlega óþolandi hvað forsætisráðherra virðist fjarræn og dul, þegar við hana er talað.
Ég á líka mjög erfitt með að þola útúrsnúninga fjármálaráðherra, það er eins og hann sé alltaf í kosningabaráttu en ekki að spjalla.
Það leggst hálf fáránlega í mig, að þegar talað er um utanþingstjórn, að þá er óljóst hverjir það eiga að vera, hverjir eiga að velja í slíka stjórn/nefnd og hverjir bera á henni ábyrgð.
Nú, mér finnst líka alveg magnað að fólk skuli vera svona veikt fyrir tali um skattalækkanir. Við, sem hér búum hljótum að vita það, að velferðarkerfi td. Byggist á sköttum okkar.
Afhverju Steingrímur hefur ekki gengið lengra í þeim málum og komið á hátekjuskatti, eins og hann rausaði um sem biluð plata fyrir kosningar, er mér illskiljanlegt, í raun ætti að krefja hann skýringa á því frekar en það skuespil sem viðgengst í sjónvarpsmiðli landsmanna.
Nei í alvöru! Mætir kannski Geir Haarde á þessi mótmæli á fimmtudaginn.
Ég geri nefninlega alveg ráð fyrir því að fleiri en ég séu í svipuðu delemma. Ég vil ekki að forpokaðir atvinnuvélamaskínulygarar steli byltingu vinstri manna og myndi helst vilja að svo færi ekki.
En til þess, að svo fari ekki, er ég ansi hrædd um að þetta blessaða pólitískt stimplaða vinstri fólk bara verði að hætta! Já hreinlega hætta! að seilast í vasana á þeim sem minnst mega sín! Takk fyrir. Það er nefninlega það, sem ruglar mig í ríminu akkúrat núna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)